Magnús komst ekki inní aðalmótið í Wales

Magnús Ingi Helgason var rétt í þessu að bíða lægri hluti í einliðaleik karla á alþjóðlega badmintonmótinu Yonex Welsh International sem fram fer í Cardiff þessa dagana. Magnús Ingi þurfti að leika í undankeppni mótsins sem hófst í morgun en þar kepptu 55 leikmenn um 8 sæti í aðalmótinu sem hefst á morgun föstudag.

Magnús Ingi sigraði tvo andstæðinga í dag en beið lægri hlut fyrir þeim þriðja. Fyrst vann hann heimamanninn Matthew Phillips 21-11 og 21-11. Því næst sigraði hann Írann Daniel Magee 21-13 og 21-8. Að lokum beið hann lægri hlut fyrir Skotanum Kieran Merrilees 21-9 og 21-13. Það munaði því litlu að Magnúsi tækist að vinna sér keppnisrétt í aðalmótinu sem hefst á morgun.

Tinna Helgadóttir systir Magnúsar leikur kl. 17.30 í dag, einnig í undankeppni mótsins. Í undankeppninni í einliðaleik kvenna leika 25 stúlkur um 8 laus sæti í aðal keppninni sem hefst á morgun. Tinna sat hjá í fyrstu umferð vegna þess að hún var með röðun í undankeppninni en mætir í annarri umferð annaðhvort stúlku frá Rússlandi eða Englandi. Takist Tinnu að sigra leikinn á eftir tryggir hún sér keppnisrétt í aðalmótinu á morgun.

Hægt er að skoða niðurröðun og úrslit mótsins með því að smella hér.

Skrifað 29. nóvember, 2007
ALS