Meistaramót íslands - spáð í spilin

Á morgun hefst Meistaramót Íslands í TBR húsunum við Gnoðarvog og ljóst að það er mikil spenna framundan. Á mótinu keppir besta badmintonfólk landsins um Íslandsmeistaratitlana eftirsóttu.

Til leiks er skráður 161 keppandi frá ellefu félögum víðsvegar af landinu, Aftureldingu, BH, Hamri, Huginn, ÍA, KR, Samherjum, TBA, TBR, UMF Skallagrími og UMFH. Fjölmennastir eru TBR-ingar en fyrir þeirra hönd keppa 102 leikmenn á mótinu. Næst fjölmennastir eru BH sem sendir 15 leikmenn til keppni.

Í einliðaleik kvenna er búist við að Íslandsmeistari síðasta árs, Ragna Ingólfsdóttir TBR, taki titilinn í níundasta skipti. Ragna er búin að keppa á fjölmörgum alþjóðlegum mótum á yfirstandandi keppnistímabili til að tryggja sér þátttöku á Ólympíuleikunum í London í sumar. Ragna er núna í 71. sæti heimslistans og í 26. sæti í Evrópu í einliðaleik kvenna. Snjólaugu Jóhannsdóttur TBR, sem hefur átt frábært keppnistímabil í vetur, er raðað númer tvö inn í einliðaleik kvenna. Snjólaug er langhæst á íslenska styrkleikalistanum en Ragna hefur ekki keppt hérlendis í vetur sökum mikillar þátttöku í alþjóðlegum mótum.

 

Ragna Ingólfsdóttir Íslandsmeistari í einliðaleik kvenna

 

Magnús Ingi Helgason TBR er með fyrstu röðun í einliðaleik karla á mótinu en hann hampaði Íslandsmeistaratitlinum í fyrra og hefur spilað með þriðju deildar liðinu Hillerød undanfarin tvö ár. Hillerød var að vinna sig upp í aðra deild og spilar í henni næsta vetur. Magnús er því líklegur til að verja titil sinn um helgina en búast má við að Helgi Jóhannesson TBR veiti honum keppni en Helgi hefur orðið Íslandsmeistari fimm sinnum. Þá eru Atli Jóhannesson TBR og Egill Guðlaugsson ÍA einnig taldir eiga góða möguleika á sigri. Atli er hæstur á styrkleikalistanum og hefur unnið flest mót í vetur en Egill sigraði síðasta mót á Varðarmótaröðinni. Það má því búast við hörkukeppni í einliðaleik karla í Meistaraflokki.

Í tvíliðaleik kvenna í Meistaraflokki hafa Ragna Ingólfsdóttir og Katrín Atladóttir TBR verið mjög sigursælar. Þær hömpuðu Íslandsmeistaratitlinum í fyrra og unnu hann þá í sjötta skiptið saman. Líklegt þykir að þær sigri einnig í ár. Karitas Ósk Ólafsdóttur TBR og Snjólaugu Jóhannsdóttur TBR er raðað númer tvö en þær eru hæstar á styrkleikalistanum. Þá verður spennandi að fylgjast með Tinnu Helgadóttur TBR og Erlu Björgu Hafsteinsdóttur BH en Tinna spilar með úrvalsdeildarliði Dana, Værløse.

Þeir Helgi Jóhannesson og Magnús Ingi Helgason, TBR, hafa verið í algjörum sérflokki tvíliðaleikspilara hérlendis síðustu ár ásamt því að þeir hafa náð ágætum árangri í alþjóðlegri keppni. Þeir hafa fimm sinnum orðið Íslandsmeistarar saman, árin 2007, 2008, 2009, 2010 og 2011. Þeir eru mjög líklegir til að verja titilinn í ár og verða Íslandsmeistarar í tvíliðaleik sjötta árið í röð. Bjarka Stefánssyni TBR og Daníel Thomsen TBR er raðað númer tvö.

Í tvenndarleik eru systkinin Magnús Ingi og Tinna Helgabörn talin líklegust til sigurs. Þau hafa unnið titilinn fimm sinnum og spila bæði í Danmörku. Helga Jóhannessyni og Elínu Þóru Elíasdóttur er raðað númer tvö.

 

Magnús Ingi og Tinna Íslandsmeistarar í tvenndarleik 2011

 

Það er ekki aðeins keppt um Íslandsmeistaratitla í meistaraflokki um helgina. Leikmenn í A, B og öldungaflokkum munu einnig etja kappi um þann mikla heiður að krýnast Íslandsmeistarar. Keppt er í tveimur flokkum öldunga 50+ og 60+.

Í A-flokki keppa margir af bestu leikmönnum unglingalandsliðanna ásamt leikmönnum á ýmsum aldri sem sumir hverjir hafa keppt í meistaraflokki á árum áður.

B-flokkurinn er gjarnan mjög breiður aldurslega séð en þar keppir jafnan skemmtileg blanda af yngri og eldri leikmönnum.

Smellið hér til að skoða niðurröðun og tímasetningar Meistaramóts Íslands 2012.

Upplýsingar um Íslandsmeistara í badminton frá upphafi má nálgast með því að smella hér.

Skrifað 29. mars, 2012
mg