Íslandsmót unglinga hefst á morgun

Íslandsmót unglinga verður í Mosfellsbæ um helgina. Badmintondeild Aftureldingar heldur mótið þetta árið ásamt Badmintonsambandi Íslands.

Mótið hefst á morgun, föstudaginn 2. mars klukkan 19 með leikjum í fyrstu umferð í einliðaleik í flokkum U13 hnokka og táta, U15 sveina og meyja og U17 drengja. Áætluð mótslok eru sunnudaginn 4. mars klukkan 14.

Keppendur eru 219 talsins frá 13 félögum, Aftureldingu, BH, Hamri, ÍA, Keflavík, KR, Samherja, TBA, TBR, TBS, UDN Búðardal, UMF Skallagrími og UMF Þór. Spilaðir verða 406 leikir um helgina.

Mótsstjóri er Róbert Henn og mótsstjórn skipa Egill G. Guðlaugsson, Stefán Alfeð Stefánsson, Vignir Sigurðsson og Margrét Gunnarsdóttir.

Á laugardeginum hefst keppni klukkan 9 í flokki U11 snáða og snóta. Sá flokkur er spilaður allur og klárast keppni í U11 með verðlaunaafhendingu klukkan 11. Þá hefst keppni í tvíliðaleik U13 og U15 og áætluð lok dagsins er klukkan 19.

Á sunnudeginum hefst keppni með undanúrslitaleikjum klukkan 10 og úrslitaleikir hefjast klukkan 12. Áætluð mótslok eru klukkan 14.

Smellið hér til að sjá niðurröðun og tímasetningar mótsins.

Athugið að tímasetningar geta breyst og mótið verður keyrt áfram eins og hægt er.

Prúðasta liðið fær bikar í lok mótsins.

Skrifað 1. mars, 2012
mg