Spennandi mót í Wales framundan

Alþjóðlega badmintonmótið Yonex Welsh International 2007 fer fram í Cardiff um næstu helgi. Mótið er hluti af Evrópumótaröðinni og gefur stig á heimslista alþjóða badmintonsambandsins. Niðurröðun mótsins var birt um helgina en þrír Íslendingar taka þátt í mótinu.

Íslandsmeistarinn Ragna Ingólfsdóttir er með aðra röðun í einliðaleik kvenna og því fyrirfram talin líkleg til að komast í úrslit á mótinu. Aðeins Englendingurinn Jill Pittard er talin sigurstranglegri en hún er tveimur sætum ofar en Ragna á heimslistanum. Þrátt fyrir að Ragna sé fyrirfram talin líkleg til að komast alla leið í úrslitin er leiðin þangað löng og ströng því með Rögnu á væng eru mjög góðir leikmenn m.a. sterk stelpa frá Perú og önnur mjög öflug frá Nýja Sjálandi. Það verður spennandi að sjá hvort að henni takist að fylgja eftir velgengni sinni fyrr í mánuðinum en fyrsti leikur Rögnu er á föstudag gegn stúlku sem kemst áfram úr undankeppninni á fimmtudag.

Magnús Ingi Helgason tekur þátt í einliðaleik karla en í fyrstu umferð mætir hann heimamanninum Matthew Phillips. Matthew hefur líkt og Magnús Ingi ekki tekið þátt í mörgum alþjóðlegum mótum og því erfitt að meta styrkleika hans. Líklega er hér um að ræða ungan og efnilegan Walesverja sem Magnús þó vonandi nær að sigra. Þeir Magnús Ingi og Matthew leika í undankeppni mótsins sem hefst á fimmtudag.

Tinna Helgadóttir tekur einnig þátt í undankeppninni í einliðaleik en hún situr hjá í fyrstu umferð og mætir annaðhvort stúlku frá Rússlandi eða Englandi í annari umferð. Takist Tinnu að sigra þann leik tryggir hún sér keppnisrétt í aðalmótinu sem hefst á föstudag. Tinna er reyndar talin líkleg til að komast áfram í aðalmótið því hún hefur fengið fjórðu röðun í undankeppninni.

Systkynin Magnús Ingi og Tinna Helgabörn taka einnig þátt í tvenndarleik í Wales. Í tvenndarleiknum hefja þau keppni í aðalmótinu og mæta þar í fyrstu umferð pari sem kemst áfram úr undankeppninni á fimmtudag. Mjög langt er síðan íslenskt tvenndarleikspar hefur tekið þátt í alþjóðlegu móti öðru en liðakeppni eða Iceland Express International og verður því spennandi að sjá hvernig gengur hjá þeim Tinnu og Magnúsi Inga.

Niðurröðun Yonex Welsh International má nálgast með því að smella hér.

Skrifað 26. nóvember, 2007
ALS