Fjölmennt og gott þjálfaranámskeið um helgina

Um helgina fór fram þjálfaranámskeið í badminton þar sem kennari var Daninn Morten Bjergen. Námskeiðið var sérstaklega vel sótt en 27 þjálfarar frá níu félögum voru skráðir til þátttöku sem er líklega algert met í skráningu á badmintonþjálfaranámskeið hérlendis.

Morten kynnti þjálfurunum meðal annars spennandi þjálfunarkerfi fyrir 6-9 ára byrjendur í badminton sem kallast Miniton og fór í gegnum mikilvægustu atriðin sem þjálfa þarf hjá hverjum aldurshópi unglinga. Þá kynnti hann þjálfurum einnig spennandi vef sem heitir bestoncourt.com og hefur að geyma fjöldan allan af videomyndum af æfingum fyrir badminton.

Leikmenn í landsliðshópum Badmintonsambandsins voru þjálfurum til aðstoðar á námskeiðinu og prófuðu allar æfingar sem kynntar voru. Leikmennirnir lögðu sig alla fram og stóðu sig frábærlega. Bæði leikmenn og þjálfarar voru mjög ánægð með helgina og fóru heim með fullt af nýjum hugmyndum til að vinna með á næstu vikum og mánuðum.

Meðfylgjandi mynd er af þjálfurunum sem tóku þátt í námskeiðinu ásamt kennaranum Morten Bjergen.

 

Þjálfaranámskeið - Morten Bjergen

 

Skrifað 16. janúar, 2012
mg