Ragna og Magnús Ingi badmintonfólk ársins

Stjórn Badmintonsambands Íslands hefur valið þau Rögnu Ingólfsdóttur og Magnús Inga Helgason badmintonfólk ársins 2011. Þau Ragna og Magnús Ingi fá viðurkenningu frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands þann 5. janúar, ásamt íþróttafólki annarra íþróttagreina. Við sama tækifæri munu Samtök Íþróttafréttamanna krýna Íþróttamann ársins.

 

Ragna varð Íslandsmeistari í einliða- og tvíliðaleik á árinu ásamt því að standa sig virkilega vel í alþjóðlegum keppnum. Magnús Ingi varð þrefaldur Íslnadsmeistari á árinu auk þess að spila badminton í dönsku þriðju deildinni með liði sínu Hillerød. Eftirfarandi er stutt ágrip á helstu afrekum badmintonfólks  ársins 2011.

 Magnús Ingi Helgason Íslandsmeistari í einliðaleik karla 2011Ragna Ingólfsdóttir Íslandsmeistari í einliðaleik kvenna

 

 

 


Badmintonmaður ársins 2011 - Magnús Ingi Helgason f. 5. apríl 1980

Badmintonmaður ársins 2011 er Magnús Ingi Helgason úr Tennis- og badmintonfélagi Reykjavíkur og Hillerød.

Magnús Ingi varð þrefaldur Íslandsmeistari í badminton í mars síðastliðnum, í einliðaleik, tvíliðaleik og tvenndarleik en Magnús er búsettur í Danmörku og kom til landsins til að keppa á þessu eina móti á þessu keppnistímabili.

Magnús Ingi er í A-landsliðinu í badminton. Hann keppti með landsliðinu fyrir Íslands hönd á Evrópumótinu landsliða í Hollandi í febrúar og á Heimsmeistaramóti landsliðs, Sudirman Cup í Kína í maí.

Magnús Ingi keppti með liði Hillerød í dönsku deildinni fram á vorið og skipaði þar mikilvægan sess í liðinu en hann spilar ávallt fyrstu viðureign liðsins í tvíliða- og tvenndarleikjum en liðið er nú í efsta sæti þriðju deildarinnar í Danmörku.

 

Iceland International 2011

 

 

Badmintonkona ársins 2011 - Ragna Ingólfsdóttir f. 22. febrúar 1983

Badmintonkona ársins 2011 er Ragna Ingólfsdóttir úr Tennis- og badmintonfélagi Reykjavíkur.

Ragna er langfremsta badmintonkona landsins. Hún varð tvöfaldur Íslandsmeistari í badminton í mars síðastliðnum, í einliðaleik og í tvíliðaleik. Alls hefur hún unnið Íslandsmeistaratitilinn í einliðaleik átta sinnum. Þá hefur hún unnið öll þau mót sem hún hefur tekið þátt í hérlendis á árinu.

Ragna er í A-landsliðinu í badminton og hefur keppt með landsliðinu fyrir Íslands hönd á Evrópumótinu landsliða í Hollandi í febrúar og á Heimsmeistaramóti landsliðs, Sudirman Cup í Kína í maí.

Ragna tekur þátt í einu til þremur alþjóðlegum mótum í mánuði til að safna stigum á heimslistanum og hún stefnir á Ólympíuleikana í London árið 2012. Hún hefur unnið til verðlauna á alþjóðlegum mótum og vann til að mynda Iceland International mótið nú í nóvember en það er fimmta árið sem hún vinnur þetta mót auk þess sem hún varð í öðru sæti á alþjóðalega litháenska mótinu í sumar og einnig á alþjóðlega velska mótinu nú í desember en hún gaf úrslitaleikinn vegna álagstognunar í lærvöðva.

Hún hefur keppt mikið upp á síðkastið og komst meðal annars í 8 manna úrslit á alþjóðlega tékkneska mótinu og í geysisterku móti í Þýskalandi fékk hún 2.720 stig á heimslistanum sem er með því mesta sem hún hefur fengið fyrir eitt mót. Hún komst í október í átta manna úrslit á geysilega sterku móti í Hollandi sem gaf henni 2.750 stig á heimslistanum og er það mesti stigafjöldi sem Ragna hefur fengið í einu móti.

Ragna er nú í 69. sæti heimslistans og eins og stendur er hún inni á Ólympíuleikunum næsta sumar en þannig hefur staðan verið nú í nokkra mánuði. Því má sterklega búast við að Ísland eigi þennan glæsilega og mjög svo frambærilega keppanda á Ólympíuleikunum í London 2012.

 

Iceland International 2011

Skrifað 21. desember, 2011
mg