═slenska U17 landsli­i­ hefur loki­ keppni Ý li­akeppninni

Íslenska U17 landsliðið keppti sinn þriðja leik á Evrópumóti U17 landsliða í Portúgal í morgun gegn Litháen. Litháenska liðið vann nauman sigur á Íslendingum 3-2.

Margrét Jóhannsdóttir vann einliðaleik kvenna örugglega 21-15 og 21-6 en hún keppti á móti Rebeka Alekseviciute.

Hún vann einnig tvíliðaleik kvenna ásamt Söru Högnadóttur 21-8 og 21-13. Mótherjar þeirra voru Rebeka Alekseviciute og Gabija Narvilaite.

Eiður Ísak Broddason tapaði einliðaleik sínum 11-21 og 10-21 gegn Ignas Raznikas.

Hann og Daníel Jóhannesson töpuðu einnig tvíliðaleik sínum eftir geysilega spennandi leik sem endaði með sigri andstæðinganna Tautvydas Liorancas og Ignas Reznikas eftir oddalotu 21-14, 17-21 og 21-13.

Tvenndarleikinn spiluðu Daníel og Sara en þau töpuðu fyrir Tautvydas Liorancas og Gabija Narvilaite 21-12 og 21-12.

 

U17 landlið Íslands

 

Smellið hér til að sjá fleiri úrslit dagsins á Evrópumóti U17 landsliða.

Ísland hafnaði í neðsta sæti riðilsins en Frakkar tróna á toppnum, Þjóðverjar í öðru sæti og Litháar í því þriðja.

Á morgun spilar franska liðið gegn enska liðinu, danska liðið mætir Slóvakíu, Tyrkland mætir Belgíu og Rússland mætir Þýskalandi. Undanúrslit verða seinna um daginn á morgun, þriðjudag.

Leikið verður til úrslita á miðvikudaginn en þá hefst einnig einstaklingskeppnin.

Skrifa­ 21. nˇvember, 2011
mg