Iceland International hefst á föstudaginn

Alþjóðlega mótið Iceland International hefst á föstudaginn. 

Alls tekur 71 keppandi þátt í mótinu frá tíu löndum, Danmörku, Englandi, Írlandi, Íslandi, Litháen, Noregi, Slóveníu, Svíþjóð, Tékklandi og Wales.  Mótið er hluti af mótaröð Badminton Europe og verðlaunafé nemur 5.000 USD. 

Ragna Ingólfsdóttir er sigurstranglegust í einliðaleik kvenna og fær fyrstu röðun.  Ragna hefur unnið Iceland International fjórum sinnum, árin 2010, 2009, 2007 og 2006.  Árið 2008 féll mótið niður.  Ragna er númer 75 á heimslistanum en Akvile Stapusaityte frá Liháen fær aðra röðun og er númer 108 á heimslistanum. 

Pavel Florian frá Tékklandi er raðað númer eitt í einliðaleik karla.  Hann er númer 144 á heimslistanum en aðra röðun fær Mathias Borg frá Svíþjóð.  Hann er númer 179 á heimslistanum. 

Í tvíliðaleik karla og tvenndarleik fá íslensk pör fyrstu og aðra röðun en í tvíliðaleik kvenna fær engin röðun þar sem ekkert par er á heimslistanum. Magnús Ingi Helgason og Helgi Jóhannesson fá fyrstu röðun í tvíliðaleik karla og aðra röðun fá Kári Gunnarsson og Atli Jóhannesson.  Í tvenndarleik fá Atli Jóhannesson og Snjólaug Jóhannsdóttir fyrstu röðun en aðra röðun fá systkinin Magnús Ingi Helgason og Tinna Helgadóttir.

Smellið hér til að sjá niðurröðun og tímasetningar á Iceland International. 

Smellið hér til að sjá myndir frá fyrri Iceland International mótum.

Skrifađ 8. nóvember, 2011
mg