Vörđur áfram ađalstyrktarađili BSÍ

Vörður tryggingar verður áfram aðalstyrktaraðili Badmintonsambands Íslands en samstarfssamningur þess efnis var undirritaður fyrir skömmu. Samningurinn gildir í eitt ár, en Vörður var einnig aðalstyrktaraðili Badmintonsambands Íslands á síðasta ári.

Landsliðsbúningar badmintonfólks munu því áfram skarta merki Varðar á næsta keppnistímabili. Jafnframt mun mótaröð Badmintonsambands Íslands kallast „Varðar mótaröðin“ keppnistímabilið 2011 – 2012.

Öflugt starf fer fram hjá Badmintonsambandinu og því eru framlög styrktaraðila mikilvæg til að standa straum af þeim kostnaði sem til fellur. Badmintonsambandið heldur árlega alþjóðlegt mót hér á landi í nóvember, sem yfir 40 erlendir keppendur sækja. Stærstu innlendu mótin eru Íslandsmót unglinga og Meistaramót Íslands í badminton, auk Deildakeppninnar. A-landsliðið og unglingalandsliðin fara árlega í nokkrar keppnisferðir til útlanda og má til að mynda nefna að A-landsliðið heldur til Kína í þessari viku þar sem það mun taka þátt í Heimsmeistaramóti landsliða. Um 5.000 manns stunda nú badmintoníþróttina á Íslandi.

„Samstarf Varðar við Badmintonsambandið hefur verið gott síðasta árið og væntum við þess að svo verði áfram. Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með hve mikið og gott starf er unnið hjá sambandinu við að koma íslensku badmintonfólki í fremstu röð íslensks íþróttafólks og við hlökkum til að styðja við þau verkefni sem framundan eru næsta árið,“ segir Guðmundur Jóhann Jónsson, framkvæmdastjóri Varðar trygginga.

Skrifađ 19. maí, 2011
mg