Ragna niður um sex sæti á heimslistanum

Nýr heimslisti alþjóða badmintonsambandsins var gefinn út í dag. Íslandsmeistarinn Ragna Ingólfsdóttir féll um sex sæti á listanum frá því í síðustu viku og er nú númer 49 á listanum.

Mörgum þykir það eflaust undarlegt að hægt sé að falla um sex sæti en vera samt nýbúin að vinna alþjóðlegt mót. Ástæðan fyrir þessu er sú að fyrir nokkrum mánuðum var stigakerfi heimslistans breytt og fá sigurvegarar á mótum eins og Iceland Express International nú færri stig heldur en í fyrra. Ragna vann Iceland Express mótið í fyrra og fékk fyrir það 3000 stig en sigurinn um síðustu helgi gaf henni aðeins 2500 stig. Þar sem að mótið í fyrra féll út í dag og mótið í ár kom inn í staðin er óhjákvæmilegt að falla aðeins á listanum. Listinn breytist nokkuð milli vikna og er venjan að Ragna sé að fara upp og niður um 5-10 sæti í hverri viku, allt eftir því hvaða mót koma inní útreikningana og hvaða mót detta út.

Hægt er að skoða heimslistann í badminton með því að smella hér.

Skrifað 15. nóvember, 2007
ALS