Tinna og Magnús Ingi leika til úrslita í þremur greinum á morgun

Á morgun sunnudag verður leikið til úrslita á Meistaramóti Íslands í badminton. Keppni í meistaraflokki hefst kl. 13:50 og verður í beinni útsendingu í Sjónvarpinu. Úrslitaleikir í A, B og öldungaflokkum hefjast kl. 10:00. Áætlað er að þeim ljúki um kl. 12:30 og verður verðlaunaafhending í kjölfarið.

Í einliðaleik karla leika til úrslita Magnús Ingi Helgason TBR og Atli Jóhannesson TBR. Magnús Ingi sigraði Helga Jóhannesson TBR í undanúrslitunum í oddaleik en Helgi hefur alls verið fimm sinnum Íslandsmeistari í einliðaleik og þar af síðustu þrjú ár.  Atli fékk gefinn undanúrslitaleik sinn vegna meiðsla Kára Gunnarssonar sem keppti við Helga um Íslandsmeistaratitilinn í fyrra.

Þær Tinna Helgadóttir TBR og Ragna Ingólfsdóttir TBR mætast í úrslitunum í einliðaleik kvenna líkt og í fyrra. Ragna varð Íslandsmeistari í fyrra í sjöundasta skipti en Tinna hlaut titilinn árið 2009 en það ár keppti Ragna ekki vegna meiðsla. Þetta er í fimmta skipti sem Tinna spilar til úrslita í meistaraflokki en hún hefur aðeins einu sinni unnið. Tinna æfir og keppir með danska fyrstu deildar liðinu Værlöse 2 þar sem hún hefur náð eftirtektarverðum árangri í vetur. Ragna stefnir á að keppa á Ólympíuleikunum í London á næsta ári líkt og í Peking árið 2008.  Ragna hefur keppt á mörgum erlendum stórmótum í vetur og staðið sig með prýði. Ragna er í 74. sæti heimslistans.

Helgi Jóhannesson og Magnús Ingi Helgason TBR mæta þeim Arthúri Geir Jósefssyni og Einari Óskarssyni TBR í úrslitaleiknum í tvíliðaleik karla. Helgi og Magnús Ingi hafa sigrað í tvíliðaleiknum fjögur síðustu ár og unnu því Íslandsmeistarabikarana til eignar fyrir tveimur árum. Þeir félagar hafa náð frábærum árangri saman á mótum. Einar og Athúr spila ávallt tvíliðaleik saman og spila vel saman.

Til úrslita í tvíliðaleik kvenna leika þær Katrín Atladóttir TBR og Ragna Ingólfsdóttir TBR annars vegar og Erla Björg Hafsteinsdóttir BH og Tinna Helgadóttir TBR hinsvegar. Tinna og Erla Björg urðu Íslandsmeistarar árið 2009 í tvíliðaleik kvenna. Katrín og Ragna hafa hampað Íslandsmeistaratitli í tvíleiðleik saman fimm sinnum.  

Íslandsmeistarar síðastu þriggja ára í tvenndarleik systkinin Tinna og Magnús Ingi Helgabörn mæta í úrslitum Helga Jóhannessyni TBR og Elínu Þóru Elíasdóttur TBR. Tinna og Magnús Ingi hafa fjórum sinnum hampað Íslandsmeistaratitlinum í tvenndarleik, árin 2005, 2008, 2009 og 2010.

 

Tinna Helgadóttir og Magnús Ingi Helgason Íslandsmeistarar í tvenndarleik 2010.  Í öðru sæti urði Arthúr Geir Jósefsson og Halldóra Jóhannsdóttir

 

Tinna og Magnús Ingi Helgabörn leika til úrslita í þremur greinum á morgun. Þau eiga því möguleika á að sigra þrefalt og Tinna í annað sinn en hún varð þrefaldur Íslandsmeistari árið 2009.

Skrifað 9. apríl, 2011
mg