Meistaramót Íslands - spáð í spilin

Á morgun hefst Meistaramót Íslands í TBR húsunum við Gnoðarvog og ljóst að það er mikil spenna framundan. Á mótinu keppir besta badmintonfólk landsins um Íslandsmeistaratitlana eftirsóttu.

Til leiks eru skráðir 154 keppendur frá tólf félögum víðsvegar af landinu, Aftureldingu, BH, Einherja, Huginn, ÍA, KR, TBA, TBR, TBS, UMF Skallagrími, UMFE og Víkingi. Fjölmennastir eru TBR-ingar en fyrir þeirra hönd keppa 94 leikmenn á mótinu. Næst fjölmennastir eru BH sem sendir 21 leikmann til keppni.

Í einliðaleik kvenna er búist við að Íslandsmeistari síðasta árs, Ragna Ingólfsdóttir, taki titilinn í áttundasta sinn. Ragna er komin á fullt til keppni í alþjóðlegum mótum og stefnir á Ólympíuleikana í London á næsta ári. Ragna er núna í 72. Sæti heimslistans. Tinna Helgadóttir sem spilar með fyrstu deildar liði Dana, Værlöse 2, hefur staðið sig með prýði þar en hún vinnur nánasta alla einliðaleiki sem hún spilar í dönsku deildinni. Tinna er á sama væng og Snjólaug Jóhannsdóttir TBR sem hefur átt frábært keppnistímabil í vetur og er langhæst á íslenska styrkleikalistanum.

 

Ragna Ingólfsdóttir og Helgi Jóhannesson Íslandsmeistarar í einliðaleik 2010

 

Helgi Jóhannesson, TBR, er með fyrstu röðun í einliðaleik karla á mótinu og því talinn líklegur til að verja titil sinn um helgina. Hann er hæstur á íslenska styrkleikalistanum en það má búast við harðri keppni frá Atla bróður hans, sem er raðað númer tvö inn í mótið. Magnús Ingi Helgason, TBR, mun þó án efa veita þeim mikla keppni en hann spilar með þriðju deildarliðinu Hilleröd. Lið Magnúsar Inga sigraði Deildakeppni BSÍ núna í febrúar síðastliðnum. Þá mun verða spennandi að fylgjast með árangri Egils Guðlaugssonar sem hefur æft og keppt í Danmörku í vetur og Kára Gunnarssonar sem keppti við Helga um Íslandsmeistaratitilinn í fyrra. Það má því búast við hörkukeppni í einliðaleik karla í Meistaraflokki.

Í tvíliðaleik kvenna í Meistaraflokki hafa Ragna og Katrín Atladóttir TBR verið mjög sigursælar. Þær hömpuðu Íslandsmeistaratitlinum í fyrra og líklegt þykir að þær sigri einnig í ár. Karitas Ósk Ólafsdóttur og Snjólaugu Jóhannsdóttur er raðað númer tvö.

Þeir Helgi Jóhannesson og Magnús Ingi Helgason, TBR, hafa verið í algjörum sérflokki tvíliðaleikspilara hérlendis síðustu ár ásamt því að þeir hafa náð ágætum árangri í alþjóðlegri keppni. Þeir urðu Íslandsmeistarar saman árin 2007, 2008, 2009 og 2010. Þeir eru mjög líklegir til að verja titilinn í ár og verða Íslandsmeistarar í tvíliðaleik fimmta árið í röð.

 Tinna Helgadóttir og Magnús Ingi Helgason Íslandsmeistarar í tvenndarleik 2010.  Í öðru sæti urði Arthúr Geir Jósefsson og Halldóra Jóhannsdóttir

Tvenndarleikurinn er eins og svo oft áður sú grein þar sem erfiðast er að spá fyrir um úrslit. Mjög mörg jöfn og góð lið eru skráð til keppni í ár og því allt opið í báða enda. Núverandi Íslandsmeistarar,systkinin Magnús Ingi og Tinna Helgabörn, teljast líkleg til að gera góða hluti um helgina. Þau urðu Íslandsmeistarar síðastliðin tvö ár og hafa spilað mjög vel í dönsku deildinni í vetur. Þá er einnig vert að fylgjast vel með þeim Arthúri Geir Jósefssyni og Halldóru Elínu Jóhanndóttur TBR sem hafa staðið sig mjög vel í vetur.

Það er ekki aðeins keppt um Íslandsmeistaratitla í meistaraflokki um helgina. Leikmenn í A, B og öldungaflokkum munu einnig etja kappi um þann mikla heiður að krýnast Íslandsmeistarar. Keppt er í tveimur flokkum öldunga 50+ og 60+.

Í A-flokki keppa margir af bestu leikmönnum unglingalandsliðanna ásamt leikmönnum á ýmsum aldri sem sumir hverjir hafa keppt í meistaraflokki á árum áður.

B-flokkurinn er gjarnan mjög breiður aldurslega séð en þar keppir jafnan skemmtileg blanda af yngri og eldri leikmönnum.

Smellið hér til að skoða niðurröðun og tímasetningar Meistaramóts Íslands 2011.

Upplýsingar um Íslandsmeistara í badminton frá upphafi má nálgast með því að smella hér.

Skrifað 7. apríl, 2011
mg