Íslandsmót unglinga - fyrri dagur

Íslandsmót unglinga í badminton fer fram á Siglufirði og Ólafsfirði nú um helgina. Fyrri dagur mótsins var í dag, laugardag. Mótið fór mjög vel af stað og leikir voru aðeins á undan áætlun á Siglufirði.

Keppni hófst í flokki U11 en leikir í þeim flokki eru ein lota upp í 21. Keppendur í U11 eru 44 talsins. Leikið var til úrslita í U11 og sigurvegarar voru Andri Snær Axelsson frá ÍA í flokki sveina og í flokki snóta vann Andrea Nilsdóttir TBR. Á Siglufirði tóku síðan við leikir í U13 og sá flokkur var spilaður fram í úrslit í öllum greinum nema í einliðaleik, þar var spilað fram í undanúrslit.

Smellið hér til að sjá úrslit dagsins.

Á Ólafsfirði hófst keppni í U15 tvenndarleik klukkan 9. Þá tóku við leikir í einliðaleik í flokki U15. U17 hóf keppni klukkan 13:40 og U19 klukkan 17:40. Á Ólafsfirði var leikið fram í úrslit í öllum greinum nema í einliðaleik, þar var leikið fram í undanúrslit.

Á morgun fara allir leikir fram á Siglufirði. Keppni hefst klukkan 9 á undanúrslitaleikjum í einliðaleik og úrslitaleikir fara fram beint á eftir þeim. Áætluð mótslok eru á morgun klukkan 14.
Skrifað 5. mars, 2011
mg